top of page
HREINSUN TANNA
Hreinsun tanna með föst tæki

Tannréttingar, sér í lagi ef föst tæki eru notuð (spangir, teinar) krefjast breyttrar tannhirðu. Nota þarf bursta sem er bæði mjór og mjúkur, ásamt góðum skammti af þolinmæði og tíma, til að áhrif tannréttinga verði sem best. Aukin fjárfesting í tíma til tannhirðu mun skila sér í auknum gæðum tannréttingar.

Tannburstun: Kvölds, morgna og eftir máltíðir

Best er að byrja alltaf sömu megin að bursta og vinna sig síðan hægt yfir í hina hlið munnsins. Burstanum er haldið þannig að hárin snúa lóðrétt. Svo er burstuð ein yfirferð beint ofan á kubbana en því næst beint undir þá. Burstaðu tvær tennur í einu með stuttum strokum (í u.þ.b. 7 sekúndur), færðu síðan burstann yfir á næstu tvær og svo koll af kolli.

Tannþráður: Á kvöldin

Þræddu tannþráðinn undir bogann sem er á milli kubbana (gott er að nota sérstaka plastnál til þess). Vefðu endunum utan um löngutangirnar. Færðu þráðinn vel undir tannholdið og láttu hann liggja þétt við hliðar tannarinnar sem verið er að hreinsa . Hreinsaðu þannig á milli allra tannanna. Ef það blæðir örlítið þegar tannþráður er notaður er það merki um að það sé bólga í tannholdinu. Þá er mikilvægt að halda áfram að nota tannþráðinn, svo að bólgan hverfi. Það getur líka blætt ef tannþráðurinn er ekki látinn liggja þétt að tönninni. Við mælum með því að bursta tennurnar vel og nota tannþráðinn strax eftir kvöldmat. Síðan ef eitthvað er borðað seinna um kvöldið nægir að bursta með tannburstanum fyrir svefninn.

Flúorskol: Á kvöldin

Það er mjög mikilvægt að skola með flúorskoli á hverju kvöldi. Flúor minnkar uppsöfnun tannsýkla og auðveldar þannig tannhirðuna auk þess að vinna gegn tannskemmdum. Athugið að sum munnskol innihalda ekki flúor. Flúorskol að styrkleika 0,05% fæst án lyfseðils.

Mataræði: ekkert hart eða seigt

Ýmsar fæðutegundir geta valdið því að kubbarnir losna. Þess vegna skal forðast allt sem er mjög hart eða seigt. Þar er sérstaklega átt við kúlur, karamellur og ýmis hlaup. Allur venjulegur matur er í lagi (nema t.d. harðfiskur, seigt kjöt og poppkorn) en betra er að skera niður t.d. gulrófur og gulrætur. Þú þarft alltaf að vera meðvitaður/meðvituð um það, hvað þú borðar.

Leiðbeiningar um notkun Corsodyl® hlaups
  • Burstið við bólgusvæðið með Corsodyl® einu sinni á dag í 1-2 vikur eða þar til bólgan er farin

  • Notið ekki sama tannbursta fyrir hlaupið og fyrir venjulegt tannkrem

  • Látið líða nokkrar klst. frá því að burstað er með flúortannkremi þar til Corsodyl® er notað. Gott getur verið að bursta með Corsodyl® á morgnana en flúortannkremi á kvöldin

  • Skolið ekki með flúorskoli eftir notkun Corsodyl®


Corsodyl® gel 1% er sýkladrepandi lyf, notað við tannholdsbólgu og til að hamla gegn tannsteinsmyndun. Varað er við langvarandi og/eða útbreiddri notkun. Lyfið getur valdið brúnum blettum á tönnum.
Frábendingar: Ofnæmi fyrir klórhexidíni.
Varúð – Varast ber að lyfið berist í augu og eyru. Geymið þar sem börn ná ekki til. Athugið að Corsodyl® fæst í lyfjaverslunum án lyfseðils.

Leiðbeiningar um notkun flúors hjá börnum í tannréttingarmeðferð
  • Burstaðu tennurnar með flúortannkremi að styrkleika 0.15% F- (1500 ppm) a.m.k. tvisvar sinnum á dag.

  • Ekki skola munninn með vatni eftir tannburstun, það nægir að skyrpa. Þannig er talið að flúorinn í tannkreminu verki lengur til varnar tannskemmdum.

  • Skolaðu tennurnar daglega með flúorlausn (0.05% NaF). Skolunin felst í því að velta 5ml af lausninni í munninum í 2 - 3 mín, skyrpa – og neyta ekki matar/drykkja í a.m.k. hálftíma á eftir.

  • Ekki tannbursta og skola með flúorlausn á sama tíma – áhrifaríkast er að dreifa þessu yfir daginn. Athugið að flúorlausn, 0.05% NaF, fæst í lyfjaverslunum án lyfseðils.

  • Burstið


Ef eitthvað kemur upp á eða ef þú hefur einhverjar spurningar, hafðu þá samband við okkur í síma 564-6640 eða sendu okkur tölvupóst á afgreidsla@tannrettingaklinikin.is og við liðsinnum þér eftir fremsta megni.

 

Gangi þér vel!

website_images_T16.webp
bottom of page