top of page
INVISALIGN LEIÐBEININGAR
Leiðbeiningar um notkun Invisalign góma

Nota þarf gómana í 20-22 klst. á sólahring. Ekki á að borða með gómana upp í sér. Ekki drekka heita drykki með gómana upp í sér líkt og kaffi og te. Það er í lagi að drekka kalda tæra drykki t.d. vatn með gómana upp í sér. Forðast mjög litsterkan mat. Með gómunum fylgir box sem gott er að setja gómana í á matmálstímum. Ef hundur er á heimilinu þarf að passa sérlega vel upp á gómana þar sem hundar eru ótrúlega sólgnir í alla tannréttingagóma.

Eftir hverja máltíð eru tennur burstaðar áður en gómarnir eru settir aftur í munninn. Það er einnig hægt að fá sér sykurlaust tyggjó í nokkrar mínútur og hreinsa þannig yfirborð tannanna þannig að matur pakkist ekki á milli tanna og gómsins.

Þrífa þarf sjálfa gómana a.m.k. einu sinni á sólahring t.d. með mjúkum tannbursta og vatni. Ef óhreinindi eru sjáanleg er hægt að nota t.d. þynntan uppþvottarlög og mjúkan bursta, t.d. gamlan tannbursta. Einnig er hægt að nota sérstaka hreinsikristalla sem fylgja með í upphafi. Þá eru gómarnir settir í ílát með 100 ml af vatni ásamt einum pakka af hreinsikristöllum. Ílátið með gómunum er hrist í um 20 sekúndur. Gómar eru látnir liggja í þessu baði í 15 mínútur. Hrista skal aftur í 20 sekúndur. Gómarnir eru því næst skolaðir með volgu vatni og ílátið skolað.

Ekki skal nota tannkrem sem ætlað er fyrir falskar tennur á gómana. Hvíttunartannkrem hentar ekki á gómana. Ekki láta gómana liggja í munnskoli eins og t.d. flúorskoli eða í hreinsitöflum fyrir gervitennur.

Mikilvægt er að nota gómana í þeirri röð og í þann dagafjölda sem merkingar pakkana segja til um. Eðlilegt er að finna þrýsting eða smá óþægindi í tönnunum þegar nýtt sett er tekið í notkun. Ef einhver gómabrún er að skerast í tannhold er hægt að nota naglaþjöl og pússa létt yfir eða hafa samband við okkur á klíníkinni. Ef kubbur eða festing er að nuddast í kinn eða slímhúð er hægt að setja þar til gert vax á kubbinn þar til slímhúðin er búin að jafna sig. Vaxið færðu hjá okkur.

Gott er að geyma síðasta settið sem var í notkun. Vertu með nýjasta settið upp í þér þegar þú kemur til okkar í eftirlit. Ef gómur skemmist eða týnist skal hafa samband við tannlæknastofuna.

Ef nota á teygjur þá færðu kennslu um það hjá okkur. Einnig færðu teygjurnar hjá okkur

 

Umhirða tannanna

Eins og venjulega þarf að bursta tennur 2 – 3 sinnum á dag. Bursta þarf sérlega vel í kringum plastupphengjurnar sem voru límdar á yfirborð tannanna. Tannþráð þarf að nota einu sinni á dag líkt og áður. Við mælum með flúormunnskoli til daglegrar notkunar.

Forðast skal harða fæðu og hart sælgæti en slík fæða gæti brotið eða losað festingarnar. Ef slíkt óhapp gerist látið þá okkur á tannlæknastofunni vita svo getum límt þær upp aftur.

inv2.jpg
bottom of page